Þar fór það líka
„Stórskuldugir skornir úr snörunni“
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Fleiri þúsund þeirra sem eru stórskuldugir fá skuldir sínar felldar niður samkvæmt frumvarpi félagsmálaráðherra um sértæka skuldaaðlögun. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir málið gruggugt og segir það furðu sæta að 30 þingmenn hafi verið fjarverandi þegar gengið var til atkvæðagreiðslu um þetta stóra mál á föstudag.
Þór segir að með ákvæðum í frumvarpi félagsmálaráðherra um sértæka skuldaaðlögun sé veitt heimild til að skera útrásarvíkingana úr snörunni. Frumvarpið líti út fyrir að vera smíðað af þeim sem skulda mest og keyrðu íslenskt samfélag í þrot. Þeir fái stórfelldar skuldir vegna afleiðusamninga og hlutabréfakaupa afskrifaðar.
Í yfirlýsingu sem félagsmálaráðuneytið sendi síðdegis segir að það sé fjarstæða að halda því fram að þeir sem veðjuðu á fall krónunnar fái skuldir sínar felldar niður en hirði gróðann með nýrri löggjöf um lausn á skuldavanda einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Þar segir að sértæk skuldaaðlögun byggist á því að þeir sem eiga í miklum greiðsluerfiðleikum greiði eins stóran hlut af skuldum sínum og greiðslugeta þeirra leyfi og að eignir gangi jafnframt upp í skuldir. Enginn ríði feitum hesti frá slíkri aðlögun. Sértæk skuldaaðlögun muni ekki nýtast þeim sem hafa skuldsett sig langt umfram það sem raunhæft var miðað við tekjur og eignastöðu. Þeirra bíði annað hvort greiðsluaðlögun fyrir dómi eða gjaldþrotameðferð.